**Hversu mörg leiðarmerki get ég búið til á leið?**
Þú getur sett niður eins mörg leiðarmerki á leið og þú vilt, þar á meðal áfangastaðinn. Þeim er raðað í þeirri röð sem þú bætir þeim við. Ýttu á stækkunarörina þar sem upplýsingar um áætlaðan komutíma birtast í leiðsögninni til að endurraða leiðarmerkjum. Þetta birtir öll leiðarmerkin.
**Af hverju sýnir upphafsskjárinn áætlaðan komutíma (ETA) fyrir áfangastað sem ég hef ekki valið?**
Leiðsögukerfið lærir inn á reglulega aksturinn þinn og áætlar að þetta gæti verið mögulegur áfangastaður. Áætlaður komutími samsvarar þessum áfangastað, miðað við umferðaraðstæður hverju sinni. Þegar kveikt er á „Commutes“ (daglegur akstur) kann kerfið að birta þér áætlaðan komutíma, jafnvel þótt þú hafir ekki tilgreint áfangastað, auk þess að vara þig við hugsanlegum vandamálum á leiðinni sem þú ekur helst. Ef þú ekur stundum aðra leið á sama áfangastað lærir kerfið hana líka. Þegar fleiri en ein leið hefur verið skráðar fyrir sama áfangastað sýnir kerfið fljótlegustu leiðina og áætlaða komutímann miðað við aðstæður hverju sinni. Þegar þú hefur ferð birtist hún sem lína á kortinu en nákvæm leiðsögn er ekki lesin upp, þar sem gert er ráð fyrir að þú þekkir leiðina. Ef umferðaraðstæður fara aftur á móti versnandi og þú víkur frá núverandi leið, og notar ekki aðrar leiðir sem þú hefur áður farið á þennan áfangastað, mun kerfið spyrja hvort þú viljir skipta yfir í nákvæma leiðsögn. Þetta getur verið sérstaklega gagnlegt ef þú ert á ókunnum stað. Ef fljótari leið finnst, sem þú hefur ekki ekið áður, mun kerfið stinga upp á fljótari leiðinni. Þegar þú ekur hjáleið inn á ókunna vegi mun kerfið virkja nákvæma leiðsögn (að því gefnu að snjallraddleiðsögn sé virk). Þegar þú kemur aftur inn á vegi sem þú þekkir slekkur kerfið sjálfkrafa á raddleiðsögninni.
**Hversu margar ferðir þarf ég að aka á sama áfangastað áður en eiginleikinn „Commute“ (daglegur akstur) lærir leiðina?**
Almennt tekur það eiginleikann „Commute“ tvær ferðir á sama áfangastað frá sama upphafsstað að læra leiðina. Tíminn verður einnig að vera innan +/- 1 klukkustundar frá upphafstíma lærðrar leiðar.
**Hvernig vel ég áfangastað?**
Nokkrar aðferðir eru í boði við að velja áfangastað með Pivi Pro1. Í fyrsta lagi eru aðferðirnar sem eru í boði á leiðsagnarreitnum á upphafsskjánum þegar enginn áfangastaður hefur verið valinn:
1. Veldu heimilið þitt sem áfangastað. Þú ýtir einfaldlega á heimilistáknið á leiðsagnarreitnum á upphafsskjánum. Kerfið reiknar leiðina út frá kjörstillingum þínum, sem hægt er að breyta í leiðsagnarstillingunum.
Athugaðu: ef staðsetning hefur ekki enn verið valin fyrir heimili mun kerfið ræsa leiðsögukerfið og leiða þig í gegnum ferlið til að velja staðsetningu. Til öryggis kann að vera betra að velja staðsetningu sem er skammt frá heimilinu þínu. Þannig er komið í veg fyrir að raunveruleg staðsetning heimilisins sé sýnd ef bílnum er stolið.
2. Þegar ýtt er á leitartáknið í leiðsagnarreitnum er leiðsögukerfið opnað með sjálfgefinni leitarsíðu. Ýttu á tákn fyrir flokk áhugaverðra staða, t.d. fyrir mat og drykk, eða ýttu á leitarstikuna til að slá inn tiltekinn stað, heimilisfang eða póstnúmer, þar sem það er stutt. Hægt er að slá heimilisföng inn sem eina línu. Um leið og þú slærð stafina inn leitar kerfið að mögulegum samsvörunum ásamt því að bjóða upp á sjálfvirkar tillögur að leitarorðum. Þegar ýtt er á nokkrar niðurstöður eða á táknið til að fela lyklaborðið eru niðurstöður birtar út frá þeim stöfum sem slegnir hafa verið inn. Ýttu á niðurstöðu. Kerfið birtir nú samsvarandi niðurstöðulista.
Hér er dæmi um hvernig þetta virkar í raun. Ýttu á leitarstikuna, sláðu inn „star“ og ýttu á „results“ (niðurstöður). Kerfið sýnir samsvaranir sem innihalda „star“. Ýttu á „Starbucks“ til að sjá alla Starbucks-staði í nágrenni þínu. Kortið uppfærir leitarsvæðið þegar þú breytir aðdrætti eða hreyfir kortið til. Ýttu á „Go“ (af stað) til að hefja leiðsögn samstundis eða ýttu á staðinn til að fá frekari upplýsingar.
Einnig er hægt að ýta tvisvar á leiðsagnartáknið neðst á snertiskjánum. Þetta er flýtileið á stillingaskjámyndina fyrir „Destination“ (áfangastaður). Þar getur þú valið einn af þremur valkostum: „Address entry“ (innsláttur heimilisfangs) (með póstnúmeri), „Search“ (leit) eða „Destinations“ (áfangastaðir). „Destinations“ getur verið „Home“ (heimili), „Recent destinations“ (nýlegir áfangastaðir), „Favourite destinations“ (eftirlætis áfangastaðir), „Shared destinations“ (sameiginlegir áfangastaðir) eða „Commutes“ (daglegur akstur).
1. Þegar daglegur akstur í boði er hann birtur á leiðsagnarreitnum á upphafsskjánum. Ef fleiri en ein dagleg akstursleið eru í boði, miðað við staðsetningu þína og tíma dags, birtist „commutes available“ (mögulegur daglegur akstur). Ef þú ýtir á leiðsagnarreitinn birtist listi yfir þær daglegu akstursleiðir sem eru í boði.
2. Einnig er hægt að velja áfangastað á kortaskjámyndinni og ýta á valmyndarhnappinn niðri í horni kortsins. Aftur verða þrír mögulegir áfangastaðir sýndir, „Address“ (heimilisfang), „Search“ (leit) og „Destinations“ (áfangastaðir).
3. Einnig er hægt að senda staði eða áfangastaði í bílinn í gegnum snjallsímaforritið Route Planner eða af Route Planner-vefsvæðinu. Staður sem er vistaður í Route Planner birtist í eftirlætis áfangastöðunum þínum þegar bíllinn þinn er tengdur við internetið og búið er að samstilla áfangastaðina. Ef leiðsögn er opin á skjánum þegar nýr áfangastaður berst úr Route Planner birtist áfangastaðurinn sem sprettigluggi. Ef þú ýtir á „use now“ (nota núna) staðfestir þú áfangastaðinn í leiðsögukerfi bílsins. Staðir sem eru tilgreindir sem áfangastaðir í Route Planner birtast sem nýlegir áfangastaðir.
**Af hverju birtist ekki áfangastaðurinn sem ég sendi í bílinn?**
Aðeins er hægt að taka á móti áfangastöðum þegar viðeigandi gagnatenging er til staðar í bílnum. Í einhverjum tilvikum kann mikil gagnaumferð á farsímakerfinu eða slæm móttökuskilyrði að koma í veg fyrir að kerfið geti móttekið áfangastaðinn, jafnvel þótt kerfið sýni að það sé tengt.
**Hvernig get ég skoðað aðrar leiðir?**
Sprettigluggi opnast í stutta stund þegar búið er að velja áfangastað og staðfesta hann með því að ýta á „GO“ (af stað). Ýttu á „Routes“ (leiðir) til að skoða sjálfgefnu leiðina (efst á listanum) og allt að tvær aðrar leiðir. Veldu leiðina sem þú vilt nota og ýttu á „start“ (ræsa) til að hefja leiðsögn.
**Hvernig leita ég að áfangastað?**
Þú slærð einfaldlega inn stað, póstnúmer eða heimilisfang í leitargluggann. Ekki skiptir máli þótt þú stafir nafnið/heimilisfangið rangt. Leitareiginleikinn nær yfirleitt að greina fyrirhugaða staðsetningu. Ýttu á fjölda niðurstaðna eða hnappinn til að fela lyklaborðið til að sjá tengdar niðurstöður.
Ef bíllinn er með gagnatengingu mun leitin sækja nýjustu upplýsingarnar í skýinu sem og í gagnagrunni bílsins.
**Hver er skilvirkasta leiðin til að leita að áfangastað?**
Þú getur sparað tíma með því að ýta á táknið til að fela lyklaborðið eða fjölda niðurstaðna eftir að búið er að slá inn nógu marga stafi til að kerfið sýni að fimm niðurstöður hafi fundist í bíl með 10" snertiskjá eða átta niðurstöður, ef um er að ræða bíl með stærri skjá. Þetta birtir lista yfir allar mögulegar niðurstöður. Þegar ýtt er á atriði á listanum leitar leiðsögukerfið að niðurstöðum út frá textanum sem sleginn er inn.
**Af hverju er ekki hægt að bæta við húsnúmeri þegar slegið er inn póstnúmer með innsláttaraðferð fyrir heimilisfang?**
Valkosturinn fyrir innslátt póstnúmers leitar að samsvörun innan viðkomandi póstnúmers. Aftur á móti er hægt að leita eftir götuheiti og húsnúmeri.
**Af hverju birtist eldsneytisviðvörunin stundum þegar ég vel áfangastað?**
Þetta er gert til að vara þig við að það sé of lítið eldsneyti á bílnum til að aka þessa leið án þess að fylla á bílinn á leiðinni.
Ýttu á eldsneytis-/rafmagnsviðvörunina til að setja áfyllingarstopp inn á leiðina. Þetta sýnir bensín-/hleðslustöðvar á leiðinni nálægt þeim stað sem þú kemur til með að þurfa að fylla á. Þessi valkostur sýnir einnig nákvæmari áætlaðan komutíma.
**Hvað er komuglugginn?**
Þegar þú ert í um það bil fimm mínútna fjarlægð frá áfangastaðnum opnast komusprettigluggi sem gerir þér kleift að leita að bílastæði. Þegar þú ýtir á „show parking“ (sýna bílastæði) opnast listi yfir bílastæðin sem eru næst áfangastaðnum. Fjarlægðin á milli áfangastaðarins og hvers bílastæðis fyrir sig er sýnd. Þegar þú ýtir á „Go“ (af stað) er bílastæðinu bætt við sem leiðarmerki.
**Hvað er snjallraddleiðsögn?**
Ef kveikt er á snjallraddleiðsögn í leiðsagnarstillingum þegar ekið er eftir reglubundnum leiðum lætur leiðsögukerfið þig vita af umferðartöfum á leiðinni og stingur upp á annarri leið ef hún er í boði. Ef nýja leiðin felur í sér vegi sem þú þekkir ekki mun kerfið sjálfkrafa virkja raddleiðsögn og nákvæmar sjónrænar leiðbeiningar. Þegar þú kemur aftur á vegi sem þú þekkir er sjálfkrafa slökkt á raddleiðsögninni.
**Hvað er „Commutes“ (daglegur akstur)?**
Kerfið lærir leiðir sem þú ekur á milli tveggja ákveðinna staða, t.d. frá vinnu til heimilis og öfugt. Kerfið getur einnig lært aðrar reglulegir leiðir sem eknar eru á svipuðum tíma dags.
Á upphafsskjánum (sem og í aðalleiðsögninni) birtir kerfið allt að þrjá áætlaða áfangastaði byggða á því sem kerfið hefur lært. Áfangastaðurinn verður sýndur ásamt vegi á leiðinni sem gerir þér kleift að greina á milli leiða þar sem þú hefur ekið fleiri en eina leið að tilteknum áfangastað. Áætlaður komutími er einnig sýndur til að gera þér kleift að sjá í fljótu bragði hvort ferðatíminn verði í samræmi við hefðbundinn áætlaðan aksturstíma eða ekki.
**Hvernig virkar sjálfvirk ræsing fyrir „Commute“ (daglegur akstur)?**
Leiðsögukerfið getur ekki veitt upplýsingar um mögulegar tafir á leið ef ekki er búið að velja leið eða slökkt er á leiðsögn „Commutes“ (daglegur akstur). Ef kveikt er á sjálfvirkri ræsingu „Commute“ í stillingum leiðsagnar getur kerfið aftur á móti birt nokkuð nákvæma tillögu að áfangastað (byggt á reglulegum leiðum sem það hefur lært). Leiðsögn fyrir daglegan akstur er ræst sjálfkrafa, þar sem kerfið gerir ráð fyrir að þú fylgir nákvæmlega þeirri leið sem stungið er upp á.
Þegar kveikt er á leiðsögn fyrir daglegan akstur og tilkynnt hefur verið um umferðaróhapp á leiðinni kann kerfið samt sem áður að láta þig vita (allt eftir staðsetningu slyssins og þeim leiðum sem eru í boði) til að þú getir valið aðra leið, gerist þess þörf.
**Hvað virkjar stillingin „mirror info panel“ (varpa upplýsingaglugga) í stillingum leiðsagnar fyrir gagnvirka ökumannsskjáinn?**
Þegar ýtt er á stækkunarörina við hliðina á upplýsingum um næstu beygju á leiðsagnarskjámynd snertiskjásins opnast upplýsingagluggi fyrir mismunandi upplýsingar til hliðar við aðalleiðsagnarkortið. Hægt er að breyta því hvaða upplýsingar eru birtar með því að strjúka til vinstri og hægri í glugganum. Á meðal valkosta eru beygjulistar, áttaviti, umferðalistar, kort af eftirstandandi leið og leiðaryfirlit. Þegar kveikt er á valkostinum „mirror info panel“ í stillingum leiðsagnar er upplýsingaglugginn á snertiskjánum einnig opinn til hliðar við kortið á gagnvirka ökumannsskjánum þegar það er stillt fyrir allan skjáinn. Þetta býður upp á að birta allar helstu leiðsagnarupplýsingar beint fyrir framan ökumanninn og birta aðrar upplýsingar á snertiskjánum.